Þess vegna er ég Zontakona
Vinkona hafði samband við mig og hvatti mig til að taka þátt í stofnun Zontaklúbbs Borgarfjarðar. Á þeim tíma þekkti ég ekki störf Zonta en fann að það gæti verið áhugavert og að láta gott af mér leiða fyrir aðrar konur. Ég ákvað því að vera með í stofnun klúbbsins.
Í bréfpósti frá Zonta International með félagaskírteini var póstkort með mynd af stofnendum Zonta hreyfingarinnar 1918. Þær minntu mig á ömmu mína, sem barðist fyrir kvennréttindum. Amma var einstæð móðir fjögurra stráka og rak fyrirtæki. Hún stóð gegn karlaveldinu sem þá ríkti. Það efldi áhuga minn að tengja Zontastarfið minningum um ömmu.
Ég á þrjár dætur og óska þess að þær fái að njóta sín í leik og starfi óháð kyni. Eftir fimm ár í Zontaklúbbi Borgarfjarðar – Uglu, hef ég kynnst starfinu á Íslandi og á alþjóðavísu og geri mér grein fyrir því að víða er enn langt í land til að konur njóti jafnréttis jafnt við karla og að við í Zontahreyfingunni skiptum sannarlega máli í því sambandi.
Ulla Rolfsigne Pedersen,
Formaður Zontaklúbbs Borgarfjarðar – Ugla 2014 – 2016