Zontaklúbbur Reykjavíkur hefur um langt árabil haft fastanefnd sem ber nafn Ameliu Earhart. Verkefni nefndarinnar er að auglýsa Amelia Earhart styrkinn og kynna hann í Háskóla Íslands og Háskóla Reykjavíkur. Tvær íslenskar konur hafa hlotið Amelia Earhart styrkinn. Er það hátt hlutfall miðað við framlag okkar til sjóðsins, en framlög Zontaklúbba í sjóðinn eru frjáls og því óreglulegt hvað í hann rennur.
Anna Soffía Hauksdóttir hlaut styrkinn er hún var við framhaldsnám í Bandaríkjunum í verkfræði sem tengdist geimvísindum. Hún er nú prófessor við verkfræðideild Háskóla Íslands. Áslaug Haraldsdóttir hlaut einnig styrkinn er hún stundaði framhaldsnám í verkfræði í Bandaríkjunum. Nám hennar tengdist stýritækni í flugvélum og vinnur hún nú við Boeing-flugvélaverksmiðjurnar í Bandaríkjunum við þróun tækni í flugumferðarstjórn. Nú eru íslenskar konur við nám sem vonir standa til að sækja muni um styrkinn og verða dæmdar verðugar til að hljóta hann.