Fyrir fjölmiðla

Fréttatilkynning frá Zontasambandi Íslands.

 

Konur sem leiðtogar að sjálfbærri framtíð

Dagana 31. ágúst – 2. september verður haldið umdæmisþing Alþjóðasamtaka Zonta í Hofi á Akureyri. Þema þingsins hverfist um það hvernig konur geti orðið í farabroddi að sjálfbærri framtíð.  

Zontasamtökin eru alþjóðleg hreyfing kvenna sem vinnur að því að bæta stöðu kvenna og stúlkna og stuðla að jafnrétti í heiminum, þar sem mannréttindi og frelsi kvenna er tryggt og konum í engu mismunað kyns síns vegna, hvorki í lagalegu né stjórnmálalegu tilliti eða hvað varðar menntun, heilbrigði og starfsréttindi.  Starf Zontasamtakanna fellur undir 5. heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem snýr  að því að tryggja jafnrétti kynjanna og valdeflingu allra kvenna og stúlkna. Á tólfta hundrað zontaklúbbar eru starfandi í heiminum í yfir 60 löndum.  Á Íslandi eru starfandi sex zontaklúbbar en hitinn og þunginn af skipulagi þingsins er hjá zontaklúbbunum tveimur á Akureyri, Zontaklúbbi Akureyrar og Zontaklúbbnum Þórunni hyrnu.

Á þinginu munu Zontakonur frá Íslandi, Danmörku, Litháen og Noregi koma saman, en klúbbar þessara landa mynda saman 13. umdæmi Zontasamtakanna.

Meðal gesta sem ávarpa þingið er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, alþjóðlegur heiðursfélagi Zonta. Á þinginu munu Zontakonur taka til umfjöllunar hvernig Zontasamtökin geta á sem áhrifamestan hátt stuðlað að því að efla konur sem leiðtoga að sjálfbærri framtíð. Lykilfyrirlesarar á sviði sjálfbærni eru Reidun Elise Vold, yfirmaður á sviði loftslagsmála og umhverfis hjá Aker BP í Noregi, Dr. Auður H. Ingólfsdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri Transformia og Ester Alda Hrafnhildar Bragadóttir, ráðgjafi hjá Umhverfisstofnun.  Auk þeirra mun Fayrouz Nouh, doktorsnemi við Háskóla Íslands, fjalla um atvinnuþátttöku múslímskra kvenna sem sest hafa að á Íslandi.

Copyright © 2023, Zonta International - District 13.