Zontasamband Íslands færir UNICEF á Íslandi 400.000 kr. í Úkraínusöfnun þeirra

Sigríður Björnsdóttir, svæðisstjóri Zontahreyfingarinnar á Íslandi segir að samtökin fordæmi harðlega erlenda árás og stríðstilburði líkt og sjáist í Úkraínu nú um stundir og afhenti UNICEF 400.000 kr. Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, tók á móti fulltrúum Zonta á Íslandi á skrifstofu UNICEF þann 29. apríl og færði þeim bestu þakkir fyrir stuðninginn sem mun koma sér vel í umfangsmiklum verkefnum UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, vegna ástandsins í og við Úkraínu.

UNICEF fær fé í Úkraínusöfnun frá Zontasambandi Íslands
Zontasamband Íslands færir UNICEF 400.000 kr. í Neyðarsöfnun vegna Úkraínu

Zonta eru alþjóðasamtök með félaga um allan heim, meðal annars í Úkraínu, og helga sig vinnu við að auka skilning, velvilja og frið og stuðla að réttlæti og alþjóðlegri virðingu fyrir mannréttindum og grundvallarfrelsi einstaklinga.

Við vitum að á átaka- og stríðstímum eru konur og stúlkur, sérstaklega þær sem hrakist hafa frá heimilum sínum, í aukinni hættu á að verða fyrir kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi. Konur bera einnig mesta ábyrgð á því að halda fjölskyldum sínum saman, að tryggja öryggi og velferð barna sinna og að takast á við um ókomna tíð að bæta það tjón á líkama og sál sem stríðið veldur.

Þar sem konur og börn fara frá Úkraínu til nágrannalanda hvetjum við alla félaga Zontahreyfingarinnar til þess að láta í sér heyra og tryggja að öryggi og velferð kvenna og stúlkna á flótta sé alltaf í fyrirrúmi þegar aðstoð er veitt.

Félagar Zontahreyfingarinnar eru örlátir og vilja gjarnan styðja beint við íbúa Úkraínu.  Zontahreyfingin sjálf sinnir ekki þessu hjálparstarfi með beinum hætti en hvetur félaga sína til að styrkja hjálparsamtök eins og UNICEF sem eru þegar starfandi í Úkraínu og í nágrannalöndum sem taka við flóttamönnum þaðan. 

Hér er frétt um gjöfina á vef UNICEF á Íslandi. 

Til viðbótar hafði Zontaklúbburinn Embla þegar lagt 300.000 kr. í Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi vegna Úkraínu.

Zonta Island